Fyrir langa, langa löngu, þegar myndir voru teknar með stórum myndavélum með tjaldi yfir og myndir voru framkallaðar í vatni með kvikasilfri og salti var lítil stelpa sem hét Elísabet. Var hún með rautt hár og fannst gaman að stappa niður fótunum og var hún mjög óþekk. Dag einn varð hún mjög veik og þurfti að liggja inni á stórum og skítugum spítala sem nauðsynlega þurfti að laga. Allt á spítalanum var að detta í sundur. Málningin var að flagna af veggjunum, lyfturnar höktu og ískraði í þeim. Litla stelpan með gleraugun var alein og hafði engan til þess að hlægja með eða leika við. Þar sem hún var óhrædd læddist hún oft út úr herberginu sínu á næturnar. Henni fannst gaman að ganga um dimma gangana og láta sér dreyma um allt það sem hún myndi laga ef aðeins hún hefði verkfæri til þess, hún myndi herða allar skrúfur, festa aftur allar flísarnar sem höfðu dottið af veggjunum og mála allt upp á nýtt. Nokkur ár liðu og Elísabet var orðin falleg ung kona, læknarnir höfðu náð að lækna hana og var henni leyft að fara aftur heim og í skólann. Hún var orðin mjög góð og kunni mjög góða mannasiði Hana langaði að bæta upp fyrir tíman sem hún hafði tapað á spítalanum – hún var iðinn námsmaður og eftir skóla saumaði hún sér tösku úr gömlum buxum. Var þetta mjög flott taska, með nokkrum hólfum og sérstakan stað fyrir veskið hennar. Elísabet eða Beta eins og hún var farin að láta kalla sig hafði einnig áhuga á ljósmyndun. Hún skráði sig í skóla þar sem hún gat lært að setja saman myndavélar þannig að allir takkar og mælar virkuðu eins og þeir áttu að gera og hægt væri að taka myndir sem væru í fókus og með rétta birtu. Einnig lærði hún að framkalla myndir í mörgum mismunandi vökvum í myrkraherbergi. Í skólanum kynntist hún dreng sem hét Kristján. Hann var alltaf brosandi og með bakpoka þar sem hann geymdi kort. Hann dreymdi um að ferðast um heiminn. Frá þeim degi sem þau kynntust voru þau alltaf saman. Beta saumaði ól fyrir myndavélina hans Kristjáns. Þau fóru að skoða gamlar verksmiðjur sem voru ekki lengur í notkun og klifra upp á topp á skorsteinunum þeirra. Á einhverjum tímapunkti, en enginn veit nákvæmlega hvenær urðu þau ástfangin og ákváðu að gifta sig þrátt fyrir að eiga ekki pening fyrir brúðkaupsveislu. Beta saumaði handa sér brúðarkjól og hjálpuðu vinir þeirra að undirbúa brúðkaupið. Beta fór ekkert án þess að hafa töskuna sína með sér þar sem hún geymdi allskonar hluti sem oft komu að góðum notum. Sem dæmi þegar þau voru á leiðinni í sitt eigið brúðkaup datt stefnuljós af bílnum þeirra. Þá fór Beta í töskuna og náði í skrúfjárn og fimm skrúfur og festi stefnuljósið aftur á bílinn. Hún passaði upp á að taskan sín væri alltaf hrein og snyrtileg og því var aldrei neitt rusl í töskunni, en það voru hins vegar sjö bitar af tyggjói sem hægt var að nota til þess að festa flísar aftur á vegg eða hægt að bjóða vinum. Það voru líka fjögur skriffæri: lindarpenni, kúlupenni, litarpenni og blýanturinn sem var notaður til að undirrita hjúskaparvottorðið þeirra Kristjáns. Það var líka sjö metra langt snæri sem hægt væri að nota í neyð. Þau voru mjög hamingjusöm og fluttu oft. Alltaf þegar eitthvað spennandi var að gerast einhversstaðar í heiminum athugaði Kristján hvar það væri á kortinu og þau lögðu af stað til þess að kanna hvað væri að gerast. Þau tóku ýmist myndir eða myndbönd og sendu þau ásamt öllu öðru efni sem þau hefðu fundið til dagblaða og sjónvarpsstöðva. Kristján meira að segja lærði að fljúga til þess að þau kæmust fyrr á staðinn. Á ferðalögunum hittu þau oft áhugavert fólk og buðu þau þeim alltaf í heimsókn til sín. Þeim fannst gaman að sofa í tjaldi og syngja lög og spila á gítar við varðeld. Beta var alltaf tilbúin fyrir hið óvænta. Í öðru hólfinu í töskunni hennar var hún með vasaljós, 9volta rafhlöðu, nál og tvinna, málband, þrjár bréfaklemmur, fjóra eyrnapinna og vasahníf sem var nauðsynlegur þegar þau voru að gista í tjaldi. Því miður eignuðust Beta og Kristján engin börn og lifðu þau því frá degi til dags. Í töskunni sinni var hún með sér hólf fyrir veskið sitt þar sem hún setti skiptimynt og seðla. Dag einn þegar þau voru langt að heiman varð Beta mjög veik og frá þeim degi var hún rúmliggjandi. Á sama tíma var farsótt í öllum heiminum og fólk gat ekki heimsótt hvort annað eða sungið saman og spilað á gítar við varðeld. Í staðinn fékk Beta bréf með sögum um lífið og þau ævintýri sem þau höfðu upplifað. Kristján las öll bréfin upphátt fyrir Betu meðan að hún var rúmliggjandi og sýndi henni hvaðan bréfin komu á kortinu úr bakpokanum. Það mikilvægasta er að hvorugt þeirra tapaði lífsgleðinni, ekki einu sinni í eitt augnablik. Jafnvel þó að Beta væri rúmliggjandi gerði hún allt sem hún gat, hún saumaði og gerði við. Þegar hún gat ekki lengur saumað ákvað hún að hún myndi nota allan þann pening sem hún átti í töskunni til þess að kaupa stóra jörð. Hún náði að kaupa jörð á internetinu en hún gat aldrei farið og skoðað jörðina af því að hún var að verða veikari og veikari. Til þess að hætta að hugsa um veikindin fóru þau Kristján að skipuleggja hvernig þau myndu nýta jörðina og hvernig hús þau myndu byggja. Þau ákváðu að skýra hana Elísabetarlund. Því miður sá Beta aldrei jörðina sína. En Kristján tók kortið sitt og fór af stað í ferðalag, eins og þau Beta voru vön að gera, nema núna var hann einn. Hann fór til Elísabetarlunds þar sem hann gróf tösku ástkærrar eiginkonu sinnar undir stórum steini umkringdum grátvíði. Hann mundi eftir öllum þeim hlutum sem Beta var vön að geyma í töskunni sinni, hann mundi eftir þeim í ákveðinni röð sem gáfu honum ákveðna staðsetningu á kortinu, 51°07‘47“N og 19°34‘41“A. Vinir þeirra gróðursettu blóm og tré í kringum steininn þar sem taskan hennar Betu var grafin. Fallegur lundur blóma og trjáa myndaðist í kringum steininn, eins og í ævintýri. Ávextirnir af trjánum voru notaðir til þess að búa til gómsæta búðinga, sultur, vín og líkjör. Valinn var sérstakur staður í lundinum fyrir varðeld þannig að fólk gat komið saman og sungið og spilað á gítar, eins og Beta var vön að gera. Enn þann dag í dag koma vinir hennar í lundinn og þegar þeir sitja við varðeldinn sjá þeir oft flugvélina hans Kristjáns fljúgandi yfir þeim. Þannig sýnir hann að hann hafi ekki gleymt Elísabetu. Árin liðu og heimurinn breyttist. Trén stækka og stækka og rólurnar sem hanga úr greinum þeirra verða hærri og hærri. Hvert það barn sem kemur í lundinn við steininn hugsar um eitthvað sem það myndi vilja setja í töskuna hennar Betu, sem er grafin í jörðinni undir fótum þeirra. Eitthvað sem kæmi að góðum notum í erfiðum og óvæntum aðstæðum. Hvað með þig? Hvað myndir þú setja í töskuna? Höfundar: Elżbieta og Krzysztof Kusz. Þýðing: Ari Hólm Ketilsson